Aðgerðir til að samræma starfsár kennara í leikskólum og grunnskólum bæjarins Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa ákveðið að fara í aðgerðir til að mæta þeim veruleika að faghlutfall kennara í leikskólum hefur farið lækkandi undanfarin ár. Markmiðið er að búa til aðlaðandi starfsaðstæður fyrir kennara á leikskólastiginu, fjölga kennurum í leikskólum bæjarins og auka þar með fagmennsku og bæta gæði náms í leikskólum börnum til heilla.
Aðgerðirnar fela í sér að samræma starfsár leik- og grunnskólakennara. 36 stunda vinnuvika frá og með 15. desember 2022 Fyrirkomulagið tengist styttingu vinnuvikunnar en allt starfsfólk leikskóla vinnur 36 stunda vinnuviku.
Starfsfólk í leikskólum í Félagi leikskólakennara, Þroskaþjálfafélaginu og BHM hefur val um að vinna 40 stunda vinnuviku og safna upp styttingu. Samtals jafngildir uppsöfnuð stytting vinnuvikunnar 23 dögum sem tekin er út í betri vinnutíma á eftirfarandi tímabilum:
# Tveir dagar í október þegar vetrarfrí er í grunnskólum Hafnarfjarðar
# Frá og með 21. desember fram til 2. janúar
# Tveir dagar í febrúar þegar vetrarfrí er í grunnskólum Hafnarfjarðar
# Þrír dagar í dymbilviku fyrir páska
Annað starfsfólk leikskóla tekur út styttingu, vikulega eða hálfsmánaðarlega.